Sunday, January 18, 2009

Byrjun skólaársins

Skólinn er byrjaður af fullum krafti og ég held að kennarar skólans hafi haldið fund milli jóla og nýárs um að vera óeðlilega ströng þetta árið, fyrsta skólavikan innihélt ótrúleg atvik sem mér finnst ekki eiga heima í háskóla:

- Einn fékk skróp þar sem hann mætti mínútu of seint í tíma (við megum skrópa 4 sinnum í hverjum áfanga)
- Vinkona mína var skömmuð af því að hún spurði hvað eitt orð þýddi og var bent á að far í spænsku áfanga stigi neðar...
- Bekkjarfélaga var ekki hleypt inní tíma 10 mínútum of seint, mætti of seint þar sem hann festist í umferð.
- Annar fékk ekki að fara á klósettið, þar sem ekki var um neyðartilvik að ræða ... hvað er neyðartilvik, er eitthvað sem við höfum ekki enn fundið út, pissa telst allavega ekki neyðartilvik.
- Vikonu minni var refsað þar sem hún mætti ekki í fyrsta tíma annarinnar, mætti ekki þar sem hún var ekki skráð í áfangan... var tekin upp fyrir framan bekkinn og eiginlega skömmuð...

Ég bara hreinlega skil ekki hvað er í gangi þarna, mér finnst að fólk sem er í háskóla og er tvítugt og eldra ætti að fá að bera smá ábyrgð á gjörðum sínum... allavega að læra það ef þú mætir ekki í tíma lendirðu í vandræðum.... ekki af því að þú ert búin með skrópin þín heldur af því að þú kannt ekki námsefnið þegar kemur að prófi...

Mér finnst líka fáránlegt að þurfa að biðja um leyfi til að fara á klósettið (það eru reyndar afskaplega fáir kennarar sem ætlast til þess)fólk ætti að vera nógu þroskað til að fara á klósettið þegar það þarf þess ekki bara til að spjalla í símann eða taka pásu frá tímanum.

En svo er það líka það að langflestir nemendur skólans eru af hæstu stétt hér í Mexíkó og hafa aldrei á æfinni sinni þurft að taka ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut og mörg þeirra eru send í skólann þar sem að þetta er flott nafn, ekki af því að þeim langar til að læra. Svo að já til þess að einhverjir aðrir en skiptinemarnir mæti í tíma þá er þetta ógulega stundvísis kerfi í gangi... Er samt nett pirruð yfir þessu stundum, sérstaklega þar sem strætókerfið hér í borg er kannski ekki alveg það besta í heiminum og ef bílstjórinn nennir ekki að stoppa þá bara keyrir hann framhjá þér... sem er vandamál ef þrír í röð gera það þá ertu alltof seinn í skólann alveg sama hversu snemma þú ferð út úr húsi...ekkert tillit tekið til þess. Jæja þetta er svo sem ekkert svo mikið mál er aðalega húndfúl útí kennarann sem leyfir ekki klósett ferðir :)

Að öðru leiti hefur önnin byrjað vel, námskeiðin sem ég valdi virðast skemmtileg, frekar fjölbreytt og það eru eldri krakkar með mér á þessum námskeiðum svo það er miklu meiri agi í tímunum og miklu meiri kröfur gerðar til nemanda sem er bara frábært. Ég tek líka allt á spænsku og þau námskeið virðast vera betri en þau sem eru á ensku, þessi á ensku eru frekar auðveld og ekki nógu miklar kröfur gerðar til nemanda en þau sem eru á spænsku eru góð.

Við "gömlu" skitpinemarnir eru núna að vinna í því að kynnast "nýju" skiptinemunum sem er ekki að ganga neitt svakavel þar sem þau svona eru búin að mynda sína hópa og við þekkjumst fyrir svo þetta er svolítið skrítið en er allt að koma :)

Það er líka búið að vera svo gaman að hitta alla eftir jólafrí og heyra hvað allir gerðu þar sem eiginlega ekkert okkar vorum í sama landinu. Ein fór heim til Kanada í kaldasta vetur sem hefur mælst þar -30 til -35 uppá dag.... henni finnst svo heitt hér meðan ég og finninn vöfðum okkur inní ullartrefla og fórum í hanska og var samt kalt...

Núna er kaldasta tímabil ársin, ég klæði mig í helming fatnaðarins sem ég á hér til að reyna að halda á mér hita á morgnanna og sakna mikið converse strigaskónna minna sem dóu í ferðalaginu okkar... og hef stundum velt fyrir mér afhverju ég tók ekki með mér eitt stykki jakka og lokaða skó... en það fer að hlýna eftir einn - tvo mánuði og þá verða jakkar og lokaðir skór eitthvað sem skiptir ekki máli.
En hérna er bara kalt á morgnanna og mjög seint á kvöldin, um miðjan daginn er 25°C... svo það er erfitt finnst mér að klæða mig hér :)

Hin venjubundna rútína er að komast í gang, skóli, ræktin, hitta krakkana, læra, elda venjulegan kvöldmat... og bara gera svona reglubundna hluti... mér finnst það ljúft núna eftir flakkið um jólin :)
Sambúðin hjá mér og finnanum gengur bara vel, ég er að verða alveg súper snyrtileg til að reyna að halda í við hann, gengur mun betur um en ég :) Kaffivélin er tildæmis þvegin svona tvisvar á dag...
Ég enda oftast á því að elda kvöldmat og hann vaskar upp og á frídögum þá vaknar hann oftast á undan mér fer í búðina og eldar morgunmat, svo ég vakna upp við matarlykt, helli upp á kaffi (hann gerir það aldrei bíður frekar eftir að ég vakni til að gera það)og nýt þess að borða helgar-morgunmat, sem er mín uppáhalds máltíð :) Ljúfa líf...

En já þar sem mér hefur einhvernveginn tekist að skrifa þetta mikið um ekkert þá ætla ég að fara að gera eitthvað af viti t.d. læra eða eitthvað álíka gáfulegt :)

Bið kærlega að heilsa heim
Bkv helgar-letibykkjan

4 comments:

Anonymous said...

En gott að eiga svona snyrtilegan sambýling... ég var að þrífa í dag... was not pretty I tell you!

Hvaða svakalega kerfi er þetta, mætti halda að þetta væri einhver endurhæfingarstofnun en ekki skóli.. fyrir mína parta ætti að boða frjálsa mætingu og láta letilýðinn bara falla um önn... og hananú!

Vona þú náir að klæða af þér 25 gráðurnar :)

Ásthildur said...

veit ekki afhverju mér finnst ég skynja smá kaldhaedni hjá tér....

Anonymous said...

hvaða hvaða.... veit ekkert hvað þú ert að tala um ;o)

Anonymous said...

hehe já það er nottla alveg skelfilegt að þrufa að klæða af sér 25 gráður múhaha. en ojj þvílíkt kerfi ég sé að ég hefði seint þrifist vel í þessum tímum.. jæja best að halda áfram að vinna gaman að heyra frá þér
kv BH